Fundargerð stjórnarfundar Foreldrafélags Laugalandsskóla 27. mars 2017

Fundargerð stjórnarfundar Foreldrafélags Laugalandsskóla

Fundarstaður: Sjónarhóll                                           Dagsetning og tími: 27. mars 2017 kl. 20:30.

Mætt voru: Markús Óskarsson, Erlendur Ingvarsson, Kristín Ósk Ómarsdóttir, Åsa Ljungberg og Rán Jósepsdóttir.

 

Dagskrá fundarins:

  1. Páskabingó
  • Verður haldið föstudaginn 7. apríl kl. 19:30.
  • Búið er að auglýsa bingóið í Stafnum, einnig verður send auglýsing úr Mentor.
  • Verð á hverju bingóspjaldi er 400 krónur.
  • Umræða um að gefa öllum börnum sem ekki hafa fengið vinning lítið páskaegg í lokin með málshætti.
  1. Vorhátíð
  • Verður haldin síðasta vetrardag þann 19. apríl og hefst kl. 17:00.
  • Með svipuðu sniði og í fyrra.
  • Pulsur, leikir og diskó í sundlauginni og e.t.v. reipitog yfir sundlaugina.
  • Foreldrar barna i 6. bekk sjá um leiki (kaupa kókósbollur).
  • Foreldrar barna í 4. bekk sjá um pulsurnar (ca 200 pulsur + meðlæti + brauð + djús). Koma með grill.
  1. Leiktæki fyrir sundlaugina að Laugalandi
  • Foreldrafélagið ætlar að gefa 150 þúsund krónur í leiktæki í sundlaugina fyrir börn, Þórhallur Svavarsson umsjónamaður sundlauganna í RY er búinn að gefa vilyrði fyrir sömu upphæð.
  • Erum með bækling frá Þórhalli með nokkrum korkleiktækjum.
  • Ákveðið að fá upplýsingar hjá Þórhalli varðandi körfuboltaspjald og skákborð í laugina, hvar þetta var keypt fyrir sundlaugina á Hellu og verð. Markús ætlar að ræða þetta við Þórhall.
  • Afganginn af upphæðinni sem til ráðstöfunar er, er áætlað að kaupa eitthvað flot-korkdót.
  • Væri gaman að tilkynna gjöfina á páskabingóinu 7. apríl og á Vorhátíðinni 19. apríl, þó svo við verðum ekki komin með hana í hendur.
  1. Annað

 

Dagskólinn

  • Gefa aftur 30.000 kr. til að kaupa leikföng fyrir dagskólann næsta haust.

 

Útikennsluaðstaðan

  • Áhugi er fyrir því að halda áfram með útikennsluaðstöðuna í foreldrasamfélaginu. Bjarni Jón segir að það vanti  drifkraft frá Laugalandsskóla um að halda verkinu áfram. Rán ætlar að taka þetta aftur upp á næsta fundi skólaráðs. Einnig ætlar Kristín Ósk að hafa samband við Sigurjón skólastjóra varðandi áhuga í foreldrasamfélags um áframhald á vinnu við útikennsluaðstöðuna þar með talið uppsetningu á gróðurhúsinu sem löngu er búið að kaupa.

Umræða um vináttuverkefni sem er hafið í leikskólanum

  • Umræða um hvort það væri ekki sniðugt að halda þessu verkefni áfram upp í grunnskólann því efnið er hugsað upp í fjórða bekk. Bæring kennari fór á þetta námskeið í vetur.
  • t.v. væri gott að bera þetta undir á aðalfund foreldrafélagsins næsta haust og fá Bæring til að vera með kynningu á efninu fyrir foreldra og forráðamenn.
  • Foreldrafélagið er jákvætt fyrir því að styrkja þetta verkefni.

 

Fleira var ekki tekið fyrir á fundinum og fundi slitið kl. 22:20,

Rán Jósepsdóttir fundarritari.

 

Posted in Uncategorized | Leave a comment

Fundargerð stjórnarfundar Foreldrafélags Laugalandsskóla 9. nóvember 2016

Fundargerð stjórnarfundar Foreldrafélags Laugalandsskóla 

Fundarstaður: Sjónarhóll                                           Dagsetning og tími: 9. nóvember 2016 kl. 20:00.

Mætt voru: Markús Óskarsson, Erlendur Ingvarsson, Kristín Ósk Ómarsdóttir, Åsa Ljungberg og Rán Jósepsdóttir.

Dagskrá fundarins:

  1. Kosið í stöður stjórnar:

– Gjaldkeri, Erlendur Ingvarsson.

– Ritari er áfram Rán Jósepsdóttir.

– Varaformaður, Markús Óskarsson.

 

  1. Farið yfir fundargerð aðalfundar Foreldrafélagsins

Kristín Ósk las upp fundargerð aðalfundar og rædd voru eftirfarandi mál:

  1. Rukkun fyrir að vera í foreldrafélaginu, spurning af hverju rukkun er stíluð á mæður barna, væri rétt að reikningurinn væri stílaður á lögheimili barna, Kristín ætlar að skoða þetta.
  2. Mentor og Feisið, umræða um að foreldrafélagið hafi aðgang að Mentor til að geta sent út upplýsingar og auglýsingar frá foreldrafélaginu. Einnig var umræða um það hvort foreldrafélgið ætti að hafa facebooksíðu til að foreldrar geti komið skoðunum og öðru á framfæri.
  3. Bréf frá foreldri í foreldrafélaginu um að skjólasjóri Laugalandsskóla vilji ekki auglýsa Holoween ball sem var á vegum félagsmiðstöðarinnar Hellisins. Formaður ætlar að ræða við Guðmund Jónasson, sem er annar af starfsmönnum félagsmiðstöðvarinnar, um að Foreldrafélagið fá upplýsingar beint til sín og geti svo sett upplýsingarnar inn á facebookarsíðu foreldra þegar hún verður komin upp.
  4. Gervigrasvöllur. Við höfum fengið þær upplýsingar að grasinu á gervigrasvellinum verði skipt út fyrir hollara/betra gras í vor. Sveitarfélögin eru búin að fá tilboð í skipti á báðum völlunum í sveitafélaginu. Þessu þarf að vera lokið fyrir haustið 2017 samkvæmt ábendingu frá ráðuneytinu.
  5. Ávextir í skólanum. Í boði er einungis epli, appelsínur, perur og banananar og aðeins einn ávöxtur í hvert skipti. Umræða um að það séu fáir/lítið af ávöxtum í boði og að börnin fái ekki nema einn eða tvo bita í hvert skipti. Ætlum að skoða þetta aðeins áfram og sjá hvernig landið liggur.
  6. Ritföng og bækur. Búið að senda á Ágúst sveitarstjóra ályktunina sem gerð var á aðalfundi Foreldrafélagsins, varðandi kaup á ritfönum fyrir nemendur skólans en þar er vísað í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.
  7. Upplýsingar á heimasíðu skólans. Sigurjón skólastjóri segir það vera sjálfsagt að setja upplýsingar fyrir Foreldrafélagið inn á heimasíðuna.

 

  1. Jólabingó.

Haldið föstudagskvöldið 25. nóvember. Kristín Ósk ætlar að senda út á alla bekkjartenglana að þeir eigi að afla vinninga fyrir jólabingóið sem er eftir hálfan mánuð. Auglýsa á í stafnum ef hann er að koma út á næstu dögum einnig auglýsa í gegnum Mentor. Rán og Åsa verðum ekki á staðnum og því ákveðið að tala við varamenn í Foreldrafélaginu til að koma og hjálpa til í jólabingóinu. Vinningum verður hægt að skila í eldhúsið til Dýu eða koma með þá tímanlega um kvöldið.  Muna eftir að hafa auka vinninga ef tveir eða fleiri fá bingó á sama tíma.

 

Ákveðið hefur verið að taka þátt í fræðslufyrirlestri um kvíða barna og ungmenna í samstarfi við hin foreldrafélögunum í sýslunni þ.e. í Grunnskólanum á Hellu og Hvolsskóla. Fyrirlesturinn er frá Hugarfrelsi og ber nafnið „Kvíði barna og unglinga– aðferðir sem reynst hafa vel“. Öllum foreldrum og forráðamönnum ásamt börnum skólanna þriggja er boðið á fyrirlesturinn.

Fyrirlesturinn verður haldinn í menningarsalnum á Hellu.

 

Fleira var ekki tekið fyrir á fundinum og fundi slitið kl.21:50,

fundarritari Rán Jósepsdóttir

 

Posted in Uncategorized | Leave a comment

Aðalfundur Foreldrafélags Laugalandsskóla

Aðalfundur Foreldrafélags Laugalandsskóla 

Fundarstaður: Matsalur skólans.         Dagsetning og tími: 12. október 2016 kl. 20:00.

Dagskrá fundarins:

  1. Kosinn fundarstjóri
    • Guðrún Lára Sveinsdóttir
  2. Kosinn fundarritari
    • Rán Jósepsdóttir
  3. Skýrsla stjórnar
    • Guðrún Lára Sveinsdóttir formaður sagði frá því sem foreldrafélagið hefur verið að gera á skólaárinu. Jólabingó, Páskabingó, sumardagurinn fyrsti. Þessir viðburðir gengu vel fyrir sig og voru vel sóttir.
    • Í ár var enginn fyrirlestur haldinn á vegum Foreldrafelagsins eins og undanfarin ár. Er það vegna þess að fyrirlestrar hafa verið afar illa sóttir árin á undan og því ákveðið að hvíla eitt ár. Stefnt er að því að halda fyrirlestur á núverandi skólaári.
    • Foreldrafélagið gaf skólanum á síðasta skólaári hlóðaeldhús fyrir útikennsluna ásamt hljóðnemum, mixer og tveimur úgulele.
  4. Skýrsla fulltrúa í skólaráði
    • Rán Jósepsdóttir flutti skýrslu skólaráðs skólárið 2015-2016. Rætt var um það sem tekið var fyrir á síðasta skólaári hjá skólaráðinu.
  5. Lagðir fram endurskoðaðir reikingar félagsins
  • Ábending kom á fundinum til gjaldkera að draga skiptimyntina frá tekjum verkefna, í stað þess að vera með hana til gjalda. Það myndi gefa skýrari mynd.
  • 000 krónur tekjur bárust vegna árgjalds til  félagsins á síðasta skólaári. Umræða um það hversu mörg heimili greiða til félagsins. Þar sem gjaldkeri félagsins gat ekki verið á fundinum vorum við ekki með svör við þessari spurningu en gera má ráð fyrir því að að þau séu í kringum 40.
  • Reikningarnir voru samþykktir af öllum fundarmönnum.
  1. Lagabreytingar
  • Kynnt voru lög og lagabreytingar,ásamt rökum stjórnar fyrir breytingu á lögunum. Breytingatillögur voru varðandi 4. 5.7. og 11. grein eins og fram kom í fundarboðinu.

Umræða um breytingu á 4. grein.

  • Fundarfólki finnst að breyta ætti orðalaginu „ Æskilegt er að einn stjórnarmaður sé í skólaráðinu“ yfir í  „skal einn stjórnarmaður jafnframt vera í skólaráði“
  • Varafulltúrar í skólráði voru kosnir: Kristín Ósk Ómarsdóttir og Arndís Fannberg.
  • Láta þarf Katrínu Sigurðardóttur vita um að hún þurfi að kalla í varamann, ef hún getur ekki mætt á skólaráðsfund. Rán sér um það.
  • Fundurinn fór jafnframt fram á breytingu á orðalagi í lok 4. greinar, í stað: „Daglega umsjón félagsins annast gjaldkeri.” verður „ Dagleg umsjón félagsins annast formaður“. Þá var ákveðið að fella út úr lögunum textann „Firmaritun félagsins er í höndum gjaldkera“.

 

Umræða um breytingu á 5. grein.

  • Gott væri að skólastjórnendur myndu láta foreldrafélagið vita hverjir eru bekkjartenglar hverju sinni að hausti.
  • Umræða um hlutverk bekkjartengla e.t.v. væri hægt að setja þær upplýsingar inn á heimasíðu skólans.
  • Umræða um það hvort bekkjarkvöld sem tengiliðirnir halda séu e.t.v. orðin úrelt, þar sem mikið er að gera hjá öllum börnum og því e.t.v. óþarfi að bæta á það.

 

Umræða um breytingur á 7. grein.

  • Hefð komin á að bekkjartenglarnir starfi með foreldrafélaginu í stærri verkefnum og óþarfi að tíunda það í þessari grein.

Engin umræða var um breytingu á  11. grein

Fundurinn samþykkir einróma áður auglýstar breytingar á þessum greinum í lögum félagsins.

 

  1. Kosning formanns foreldrafélagsins og annarra stjórnarmanna
    • Nú ganga úr stjórn Guðrún Lára Sveinsdóttir og Hannes Birgir Hannesson og þökkum við þeim með lófataki fyrir góð störf í Foreldrafélaginu undanfarin ár.
  • Kristín Ósk Ómarsdóttir gjaldkeri gefur kost á sér í formannssætið og er hún ein sem býður sig fram í það sæti. Hún var kjörin með lófataki.
  • Åsa Ljungberg og Markús Óskarsson eru kosin í stjórn og er þau boðin velkomin í stjórn Foreldrafélagsins með lófataki.
  • Varamenn í foreldrafélaginu eru áfram Borgþór Helgason og Lea Helga Ólafsdóttir.
  1. Kosning fulltrúa í skólráðið
  • Katrín Sigurðardóttir gefur kost á sér til áframhaldandi setu í skólaráði.
  • Varamenn í skólráði eru Arndís Fannberg og Krisítn Ósk Ómarsdóttir.
  1. Kosinn skoðunarmaður reikninga.
  • Kristján Pálmason hefur farið yfir reikningana undanfarin ár og gerum við ráð fyrir að hann sinni því áfram þó hann sé ekki á fundinum.

 

  1. Önnur mál – orðið laust:

 

Gjafir til skólans

  • Stjórn hefur ákveðið að leggja 150.000 þúsund krónur til kaupa á leiktækjum í sundlaugina að Laugalandi. Þórhallur Svavarsson umsjónamaður sundlauganna hefur einnig gefið vilyrði fyrir að leggja í sama málefni 150.000 krónur.
  • Tillögur fundarins um kaup á leiktækjum fyrir sundlaugina að Laugalandi:
    • Skólahreyst braut
    • Lítil rennibraut fyrir unga krakka.
    • Körfuboltahring í sundlaugina.
    • Taflborð í sundlaugina.
    • Klifurvegg eða fljótandi klifurvegg.
  • Nýsköpunarstefna í gjöfum. Fundurinn er sammála um að nýta eigi peninga foreldrafélagsins til að kaupa eitthvað sem nýtist til nýsköpunar ef möguleiki er á því. Kaupa eitthvað sem er umfram það sem má ætla að sé á fjárhagsáætlun.
  • Gott væri í framtíðinni að fá tillögur frá skóla/kennurum á þeim nótum að gjafirnar séu hugsaðar til nýsköpunar. Að foreldrafélagið sé ekki að gefa gjafir sem eðlilegt geti talist að sveitafélögin greiði fyrir.
  • t.v. væri hægt að auglýsa eftir hugmyndum innan foreldrasamfélagsins og í því sambandi væri gott ef formaður foreldrafélagsins hefði aðgang að mentor til að geta haft samband við foreldra sem og til að senda tilkynningar um foreldrafundi. Einnig væri hægt að stofna facebookar-grúbbu með öllum foreldrum/forráðamönnum nemenda í Laugalandsskóla. Nýjum formanni foreldrafélagsins er falið að skoða þetta og framkvæma.

Foreldrakönnun

  • Umræða á fundinum um foreldrakannanir á vegum skólans. Þar gæti foreldrum gefist kostur á að segja skoðun sína á skólahaldi og skólamálum. Rán ætlar að taka þetta upp á næsta skólaráðsfundi.

 

Útikennsluaðstaðan

  • Lítið hefur gerst í útikennsluaðstöðunni undanfarið ár.
  • Nýrri stjórn er falið að athuga með gang mála við útikennsluaðstöðuna og mun Rán taka þetta upp á næsta skólaráðsfundi.

 

Sparkvöllur/Battavöllur.

  • Búið að senda fyrirspurn á sveitafélögin varðandi að endurnýja gervigras á
  • Ásahreppur er tilbúinn að koma strax að þessu verkefni.
  • Rangárþing ytra hefur ekki gefið Foreldrafélaginu svar við ýtrekaðri fyrirspurn um þetta mál.
  • Nýrri stjórn er falið að ýta enn og aftur á Rangárþing ytra og mun formaður gera það.

Mötuneytismál: 

  • Rætt um að börn í Grunnskólanum á Hellu hafi aðgang að ávöxtum eða grænmeti fyrir hádegi. Foreldrar á fundinum vilja gjarnan að slíkt fyrirkomulag verði tekið upp í Laugalandsskóla.
  • Í mötuneyti Laugalandsskóla eru greiddar kr. 7.345 kr. á mánuði miðað við fimm daga í viku. En á Hellu er mötuneyti fjóra daga í viku og kostar 5.877 kr.
  • Á Laugalandi er rukkað fyrir ávexti kr. 709 kr á mánuði fyrir börn í 1.-4. bekk. Þetta gjald á að taka af núna í október.
  • Fundurinn ályktar varðandi þetta:

Ályktun Aðalfundar foreldrafélagsins til skólastjóra Laugalandsskóla:

Aðalfundur foreldrafélags Laugalandsskóla, haldinn á Laugalandi 12. október 2016, fer fram á að ávextir og/eða grænmeti verði á boðstólnum fyrir hádegi fyrir börn í Laugalandsskóla líkt og er í Grunnskólanum á Hellu“.

 

  • Stjórn Byggðasamlagsins Odda, sem rekur skólanna, hefur ákveðið að ávaxtagjald verði lagt niður í Laugalandsskóla og samræma beri þessi ávaxtamál í báðum skólum frá og með 1. október sl. Í fundargerð 6. fundar byggðsamlagsins frá 26. september sl., lið 2.3 um gjaldskrármál segir:

„Gjaldskrármál.
Gjaldskrá Odda er samræmd fyrir skólana. Tíðkast hefur að foreldrar greiði fyrir ávaxtahressingu fyrir hádegi á Laugalandi en ekki á Hellu. Tillaga um að þetta verði samræmt að fullu og ekki tekið gjald fyrir heldur sé þetta innifalið í mötuneytisgjaldi frá og með 1. október.“

 

  • Fram kom á fundinum að að gott væri að spyrja um þessi mál í foreldrakönnun (ef lögð yrði fyrir foreldra/forráðamenn) á vegum skólans.

Ritföng og bækur:

  • Samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna eiga öll börn rétt á grunnmenntun án endurgjalds. Í 28. grein Barnasáttmálans lið a) segir: Aðildarríki viðurkenna rétt barns til menntunar og skulu þau, til þess að réttur þessi nái fram að ganga stig af stigi og þannig að allir njóti sömu tækifæra, einkum:
    a) Koma á skyldu til grunnmenntunar sem allir geti notið ókeypis. 
  • Fundurinn ályktar varðandi þetta:

Ályktun Aðalfundar Foreldrafélagsins til Byggðarsamlags Odda:

„Aðalfundur Foreldrafélags Laugalandsskóla, haldinn á Laugalandi 12. október 2016, skorar á Byggðasamlagið Odda að skólarnir sjái um að kaupa ritföng fyrir nemendur. Gjald vegna þessa yrði svo innheimt af Odda bs., samhliða annari innheimtu til foreldra.

 

Fram kom í umræðum um þennan lið að skólarnir myndu fá ritföng á betra verði, nýting yrði betri og þetta fyrirkomulag myndi koma í veg fyrir mismunun.

Upplýsingar á heimasíðu skólans:

  • Umræða um að gott væri að helstu upplýsingar um viðburði í skólans væru settar á heimasíðu skólans. Dæmi um upplýsingar sem gott væri að hafa á heimasíðunni: jóla-/páskabingó, tengiliði bekkja, hlutverk tengiliða bekkja, sumardagurinn fyrsti, hverjir sjá um þessa viðburði, klukkan hvað þeir eru og hvort það kosti inn á þá.

 

Fleira var ekki tekið fyrir á fundinum og fundi slitið 22:17.

Rán Jósepsdóttir, fundarritari.

Posted in Uncategorized | Leave a comment

Stjórnarfundur Foreldrafélags Laugalandsskóla 12. september 2016

Stjórnarfundur Foreldrafélags Laugalandsskóla 

Fundarstaður: Ráðagerði.                                          Dagsetning og tími: 12. september 2016 kl. 20:30.

Mætt voru: Guðrún Lára Sveinsdóttir formaður, Hannes Birgir Hannesson meðstjórnandi, Kristín Ósk Ómarsdóttir gjaldkeri, Erlendur Ingvarsson meðstjórnandi og Rán Jósepsdóttir ritari.

Dagskrá fundarins:

  1. Stjórn foreldrafélagsins

Í fyrra voru Erlendur, Kristín og Rán kosin til tveggja ára. Guðrún Lára og Hannes Birgir voru kjörin til tveggja ára 2014 og geta því  hætt í stjórn. Guðrún Lára kýs að gera það, en Hannes Birgir ætlar að hugsa málið. Auglýsa á stöðurnar lausar í fundarboði aðalfundar foreldrafélagsins.

 

  1. Lög foreldrafélagsins

Farið var yfir lögin og gerðar tillögur að breytingum fyrir aðalfund.

  • -3. grein laganna – óbreytt.
  • gr. Rætt um skipun stjórnar. Stjórnin hefur verið skipuð tveimur úr Ásahreppi og þremur úr Rangárþingi ytra. Stjórn telur þetta fyrirkomulag orðið úrelt og leggur til að þessari grein verði breytt og hljómi þá svona:

„ Stjórn félagsins skal skipuð fimm foreldum/forráðamönnum. Æskilegt er að þar af sé einn sem einnig er fulltrúi í skólaráði. Stjórnarmenn skulu kosnir á aðalfundi til tveggja ára í senn, þrír stjórnarmenn annað árið og tveir hitt. Kynjahlutföll skulu vera sem jöfnust. Formaður skal kosinn sérstaklega, að öðru leyti skiptir stjórnin með sér verkum. Auk formanns skal stjórnin skipuð varaformanni, ritara, gjaldkera og einum meðstjórnanda. Aldrei skulu fleiri en þrír ganga úr stjórn í einu. Falli atkvæði jöfn ræður hlutkesti. Á stjórnarfundi ræður meirihluti atkvæða niðurstöðu mála. Daglega umsjón félagsins annast gjaldkeri. Firmaritun félasins er í höndum gjaldkera“.

  • gr. Bekkjartenglar. Samkvæmt lögum foreldrafélagsins eiga bekkjarfulltrúar að starfa á vegum foreldrafélagins. Svo er ekki í raun en skólinn/kennarar hafa alfarið séð um þessi mál.

Stjórnin leggur til að þessi grein verði alveg felld út úr lögum foreldrafélagsins.

  • grein laganna – óbreytt.
  • grein. Breytingartillaga þess efnis að þessi grein verði tekin út þar sem fulltrúaráð er ekki til.
  • grein laganna – óbreytt.
  • grein laganna – óbreytt.
  • grein laganna – óbreytt.
  • grein. Breyting á orðalagi. Stjórn leggur til að greinin hljóði svona:

„Félagsgjöld skulu ákveðin af stjórn, eitt gjald fyrir hvert heimili og sér gjaldkeri um innheimtu.“

  • grein laganna – óbreytt.
    • grein laganna – óbreytt.

 

  1. Tímasetning aðalfundar Foreldrafélagsins

Rætt um að hafa aðalfund foreldrafélagsins á mánudegi eða miðvikudegi í byrjun október kl. 19:30. Guðrún Lára sér um að boða fundinn.

 

  1. Gervigras á sparkvelli á Laugalandi

Rætt um hvenær skipta á um gervigras á sparkvellinum að Laugalandi. Ásahreppur hefur sagst vera tilbúinn þegar Rangárþing ytra gefur grænt ljós. Guðrún Lára ætlar að senda póst á sveitafélögin með von um svör við þessu fyrir aðalfund foreldrafélagsins.

 

  1. Nestismál í skólanum

Foreldri kom að máli við Kristínu Ósk og bað um að athugað yrði hver munurinn væri á fæðisgjaldi milli skólanna (Hellu og Laugalands)  og hvað væri innifalið í því gjaldi í hvorum skóla fyrir sig. Viðkomandi taldi að foreldrar barna í Laugalandsskóla væru að greiða hærra gjald fyrir matinn en foreldrar barna í Helluskóla. Eins væri boðið upp á ávexti í nesti á Hellu og þyrftu börn því ekki að koma með nesti í skólann. Stjórnarmeðlimir eru þessu ekki kunnugir en Guðrún Lára ætlar að senda fyrirspurn á skrifstofu Rangárþings ytra um þessi mál.

 

  1. Ritföng og bækur

Umræða um hvort stílabækur og önnur ritföng ættu að vera keypt af skólanum sem svo úthlutar þessu til barnanna til notkunar í skólanum. Foreldrar greiða þá ákveðna upphæð til skólans og hafa þá allir eins stílabækur og ritföng. Stjórn sammála því að þetta væri ákjósanlegt.  Ákveðið að Guðrún Lára sendir fyrirspurn varðandi þetta.

 

  1. Tímasetning árshátíðar

Fyrirspurn til stjórnar varðandi tímasetningu árshátíðarinnar í skólanum. Finnst mörgum árshátíðin vera heldur seint þar sem hún er oft ekki búin fyrr en milli kl. 22 og 23.  E.t.v. hægt að flýta henni um 30 mínútur, það myndi breyta töluverðu fyrir yngstu börnin. Verður lagt fyrir fund í skólaráði.

 

  1. Gjöld á árshátíðinni

Fyrirspurn til stjórnar varðandi útgjöld foreldra  á árshátíðinni. Það kostar inn á árshátíðina, en einnig er til sölu skólablaðið og dvd diskar með leiknum upptökum krakkanna úr skólanum. Stjórn sammála því að einhvers staðar þarf tíundi bekkur að hafa fjáröflun fyrir skólaferðalaginu, en öll innkoma af árshátíðinni og sala skólablaðsins rennur í ferðasjóð þeirra. Stjórn telur ástæðulaust að hrófla við núverandi fyrirkomulagi.

 

  1. Gjafir/kaup

Ákveðið að kaupa útileikföng/dót fyrir sundlaugina á Laugalandi, s.s körfuboltaspjald og taflborð. Óskað verður eftir að sveitarfélögin leggi til fjárhæð til móts við foreldrafélagið. Ákveðið að setja í þetta 100 – 150 þúsund krónur.  Rán ætlar að hafa samband við Þórhall Svavarsson, yfirmann sundlauganna, fyrir aðalfundi foreldrafélagsins. Jafnframt ákveðið að athuga á aðalfundinum hvort einhver hafi gjafatillögur til stjórnar. Undanfarin ár hefur skólinn komið með ýmsar tillögur að gjöfum frá foreldrafélaginu.

 

 

Fleira var ekki tekið fyrir á fundinum og fundi slitið um kl. 22:50.

Posted in Uncategorized | Leave a comment

Fundargerð aðalfundar Foreldrafélags Laugalandsskóla 2015

Fundargerð aðalfundar Foreldrafélags Laugalandsskóla

Fundarstaður: Matsalur Laugalandsskóla                 Dagsetning og tími 6. október 2015 kl.19:30

Mættir voru allir úr stjórn Foreldrafélasins ásamt 8 öðrum samtals 13 manns.

  1. Formaður setti fundinn og bauð fólk velkomið
  2. Engilbert Olgeirsson var kosinn fundarstjóri
  3. Rán Jósepsdóttir var kosin fundarritari
  4. Engilbert tók við stjórn fundarins

 

  1. Skýrsla formanns Foreldrafélags Laugalandsskóla Guðrún Lára fór í gegnum það helsta sem gert hefur verið í foreldrafélaginu á síðasta skólaári:
  • Bingóin gengu vel og töluverð innkoma var af þeim.
  • Sumardagurinn fyrsti var með hefðbundnu sniði, líkt og undanfarin ár.

Fyrirlestrar á síðasta skólaári:                                                                                      Foreldafélagið var í samstarfi við önnur foreldrafélög og íþróttafélögin í sýslunni og haldnir voru tveir sameiginlegir fyrirlestrar. Fyrri fyrirlesarinn var Sigurður Ragnar Eyjólfsson fyrrverandi þjálfari ÍBV í knattspyrnu og fyrrum þjálfari kvennalandsliðsins í fótbolta. Fyrirlestur sem bar yfirskriftina: Hvað þarf til að ná árangri? Var sæmilega mætt á fyrirlesturinn eða um 50 manns.  Seinni fyrirlesturinn var bar yfirskriftina „Jafnrétti og hamingja“ og var fyrirlesari Hanna Björg Vilhjálmsdóttir kennari í kynjafræði. Hún fjallaði m.a. um stelpu- og strákamenningu og hvernig klámvæðing hefur áhrif á samfélagið og einstaklingana. Dræm mæting var á þennan fyrirlestur.

 Styrkir til skólans á síðastliðnu skólaári:                                                                                    Keyptir nýir jólasveinabúningar. Kvenfélögin þrjú, Lóa, Eining og Framtíðin ásamt Garpi og Foreldrafélagi Laugalandsskóla fjárfestu í þessum búningum. Þá fékk dagskólinn 30.000 kr. styrk vegna kaupa á leikföngum.

 

Skýrsla frá skólaráði
Rán Jósepsdóttir kynnti það sem skólaráðið tók fyrir á síðasta skólaári.

Farið var yfir:

-skólalykilinn.

-starfsmannahandbókina.

-innra mat skólans frá árinu 2009 til ársins 2014 og kemur það mjög vel út bæði fyrir nemendur og kennara.

– valgreinar skólans.

-drög að fjárhagsáætlun yfirfarin og samþykkt af skólaráði. Helstu breytingar í kostnaði er aukin kostnaður við skólaakstur en það kemur vegna fjölgunar barna í skólanum.

 

  1. Reikningar

Brynja Jónasdóttir lagði fram reikninga félagsins og fór yfir þá.  Félagið á í dag 465.785 kr. í sjóði.  Árgjald félagsins verður áfram 1.000 krónur á heimili. Ekki voru neinar athugasemdir gerðar við reikningana og voru þeir samþykktir samhljóða.

 

  1. Breytingar á lögum

Engar lagabreytingar lágu fyrir en rætt var um að breyta þurfi orðalagi í 9. grein laga foreldrafélagsins þar sem talað er um að kosning í skólaráð sé til eins árs í senn en fram kemur í 8. grein sömu laga að fulltrúar í skólaráði séu kosnir til tveggja ára í senn.

 

  1. Kosningar

Kosning í foreldrafélagið:

Nú gefst þremur stjórnameðlimum kostur á að ganga úr stjórn þar sem þeir hafa setið í tvö ár. Það eru þau Brynja Jónasdóttir, Yngvi Karl Jónsson og Rán Jósepsdóttir. Brynja og Yngvi Karl ætla að ganga úr stjórn en Rán gefur kost á sér til áframhaldandi setu í Foreldrafélaginu.

Enginn á fundinum gaf kost á sér í stjórn, en búið var að tala við Erlend Ingvarsson og Kristínu Ósk Ómarsdóttur og gefa þau bæði kost á sér.  Fundurinn samþykkti samhljóða kosningu þeirra í stjórn Foreldrafélagsins.

Varamenn foreldrafélagsins:

Varamenn eru kosnir Borgþór Helgason og Lea Helga Ólafsdóttir.

Kosning í skólaráð:

Rán Jósepsdóttir hefur verið í skólaráði s.l. tvö ár og gefur kost á sér áfram.

Katrín Sigurðardóttir hefur verið annar fulltrúi foreldra í skólaráði, en hún var kosin til tveggja ára í fyrra.

Skoðunarmaður reikninga er Kristján Pálsson og gefur hann kost á sér áfram.

 

Brynju Jónasdóttur og Yngva Karli Jónssyni voru þökkuð vel unnin störf fyrir Foreldrafélagið undanfarin tvö ár.

 

  1. Önnur mál:
  2. Færanlegar hlóðir:

Rætt var um beiðni frá kennurum um hlóðir sem kennarar vilja gjarnan fá til að nýta bæði í heimilisfræði sem og við önnur tækifæri. Þetta eru hlóðir sem hægt er að færa til og nýta í ferðalögum og á útikennslusvæðinu.  Hlóðunum fylgir ýmiskonar fylgihlutir s.s. panna, pottur, hliðarborð, hanskar og ketill. Allur pakkinn kostar 173.100 krónur. Allir fundarmenn voru samþykkir þessum kaupum.

  1. Vélsögin í skólanum:

Vélsög skólans gefur frá sér mikinn hávaða. Fram kom fyrirspurn hvort hægt væri að kaupa hljóðláta bandsög fyrir málmsmíðina sem kostar í kringum 120-130 þúsund. Hugsanlega væri hægt að selja gömlu sögina.  Borgþór tók að sér að skoða þetta frekar og ætlar ræða við Sigurjón skólastjóra um málið.

  1. Gervigras á sparkvellinum við skólann:

Á fundinum var skorað á Foreldrafélagið að það beiti sér fyrir því að gervigrasið á sparkvellinum á Laugalandi verði endurnýjað. Gervigrasið á vellinum er talið vera heilsuspillandi. Stjórn Foreldrafélagsins var falið að senda ályktun frá fundinum um þetta efni til sveitastjórna Rangárþings ytra og Ásahrepps.

Ályktun fundarins varðandi gervigras á sparkvelli:

Aðalfundur Foreldrafélags Laugalandsskóla haldinn 6. október 2015 skorar á sveitastjórnir Rangárþings ytra og Ásahrepps að skipta um yfirborð/gerviefni á KSÍ sparkvelli að Laugalandi. Ástæðan er undangengnar umræður í þjóðfélaginu sem og erlendar rannsóknir um skaðsemi efna í gervigrasinu.

Tillagan samþykkt samhljóða.

  1. Hljóðnemar við skólann:

Fram kom beiðni frá skólanum um kaup á nýjum hljóðnemum, en eldri hljóðnemar eru margir hverjir úr lagi gengnir eftir mikla notkun.  E.t.v. er hægt að tala við Pétur Einarsson hljóðmann um hvað sé rétt að kaupa í þessum efnum. María Carmen ætlar að tala við Stefán Þorleifsson tónlistarkennara um hvað honum finnst að kaupa eigi og hver verðmiðinn sé og verður þetta  þá tekið upp aftur í stjórn félagsins.

  1. Útistofa:

Umræða um að þar gerist hlutirnir heldur hægt.  Gróðurhúsið er á bið en enginn veit af hverju. Stefnan er að samnýta gróðurhúsið og útiaðstöðuna með leikskólanum sem er frábær viðbót fyrir báðar stofnanirnar.  Allir á fundinum sammála um að þetta gróðurhús eigi að rísa sem fyrst.  Formanni Foreldrafélagsins er falið að ræða við Sigurjón varðandi gróðurhúsið og hug fundarins til þess.

  1. Leiktæki fyrir dagsskólann:

Eins og undanfarin ár vantar leiktæki í dagskólann og ákveðið  að leggja 30 þúsund kr. í verkefnið, eins og gert var í fyrra.

  1. Leiktæki fyrir sundlaugina: Rætt um kaup á leiktækjum, e.t.v. eitthvað íþróttatengt fyrir sundlaugina hér á Laugalandi. Ýmis konar leiktæki sem myndi líka nýtast við sundkennslu. Vilji foreldrafélagsins er að til séu samskonar leiktæki í sundlauginni á Laugalandi og til eru á Hellu. Ekki er hægt að setja pening í þetta á þessu ári en hugsanlega á því næsta.

 

  1. Hvað á félagið að eiga mikinn pening?:

Hvað er réttlætanlegt að eyða miklu í innkaup á þessu ári? Umræða myndaðist um tekjur og gjöld. Hvað ætlum við að kaupa og hvað viljum við eiga mikið í sjóði? Flestir sammála um að tilgangurinn sé ekki að safna fé heldur nýta það til góðra verka fyrir skólann. Allir sammála um að foreldrafélagið stjórni því hvað keypt er, en ekki skólastjóri eða kennarar. Gott að fá tillögur frá þeim sem foreldrafélagið skoðar svo eins og gert hefur verið í ár.

  1. Verð á bingóspjöldum:

Óvart voru bingóspjöld seld á 500 kr. í páskabingóinu í fyrra í stað 300 kr. eins og verið hefur undanfarin 10-15 ár. Umræður mynduðust um verð á bingóspjöldunum einhverjir vilja halda í 300 kr. En öðrum finnst eðlilega að spjöldin hækki m.t.t. verðbólgu og flottari vinninga.  Ákveðið var að fara milliveginn og hækka spjaldið um 100 krónur eða í 400 kr.

  1. Sýnileiki foreldrafélagsins:

Þegar Foreldrafélagið gefur gjafir til skólans eða samfélagsins að fá þá mynd af afhendingunni í Stafinn og jafnvel Dagskránna líka. Einnig væri sniðugt að nefna á bingóunum hvað keypt var fyrir ágóða bingósins skólaárið á undan.

 

  1. Fyrirspurnir frá stjórn til fundarins:
  2. Hvaða álit hefur fundurinn á því að halda áfram að hafa fyrirlestra þrátt fyrir litla mætingu foreldra?

Allir fundargestir sammála því að halda eigi áfram fyrirlestrum um góð og gild málefni fyrir okkar góða samfélag.  Mikil ánægja meðal fundargesta með samstarf um fyrirlestra með hinum skólunum í sýslunni sem og íþróttafélögunum.  Rætt um að sniðugt væri að senda upplýsingar á sveitafélögin Rangárþing ytra og Ásahrepp þegar fyrirlestrar eru svo hægt sé að setja upplýsingar um þá inn á heimasíður sveitafélaganna.

  1. Sumardagurinn fyrsti, hvað finnst fundarfólki um að færa hátíðina yfir á síðasta vetrardag, líkt og gert hefur verið á Hellu og Hvolsvelli?

Ýmsar vangaveltur voru á fundinum, en flestir voru sammála því að prófa nýtt fyrirkomulag ef hátíðin rekst ekki á eitthvað annað sem krakkarnir í skólanum eru að gera þennan dag (síðasta vetrardag).

 

Fleira ekki tekið fyrir á fundinum og fundi slitið kl.21:15.

Posted in Uncategorized | Leave a comment

Stjórnarfundur í Foreldrafélagi Laugalandsskóla 23. september 2015

Stjórnarfundur í Foreldrafélagi Laugalandsskóla

Fundarstaður: Hamarendar                                               Dags.  23.9´15  klukkan 17:00

Mættir eru: Guðrún Lára Sveinsdóttir formaður, Hannes Birgir Hannesson meðstjórnandi, Brynja Jónasardóttir gjaldkeri og Rán Jósepsdóttir ritari. Forföll boðaði Yngvi Karl Jónsson.

Dagskrá fundarins:

  1. Skipun stjórnar: Brynja Jónasardóttir og Yngvi Karl Jónsson hafa setið í tvö ár í stjórn og vilja nú ganga úr stjórn. Rán Jósepsdóttir hefur einnig setið í stjórn s.l. tvö ár, en vill gefa kost á sér áfram. Rætt um hverja væri hægt að hafa samband við fyrir aðalfundinn sem hugsanlega væru til í að koma í stjórn foreldrafélagsins. Guðrún Lára ætlar að undirstinga einhverja fyrir aðalfund Foreldrafélagsins.

 

  1. Innkaup þessa skólaárs: Sigurjón skólastjóri var beðinn um að láta vita ef það væri eitthvað sem skólann vantaði og félagið gæti hugsanlega keypt. Hann stakk upp á hlóðum til að nýta á útikennslusvæðinu. Með þessum hlóðum eru ýmsir aukahlutir s.s. ofnhanskar, ketill, pottur og „skjólveggur“  Þetta kostar u.þ.b. 120 þúsund krónur. Einnig  vantar leikföng í dagsskólann en beðið var um 30-40 þúsund krónur fyrir kaup á nýjum leikföngum. Best er fyrir bókhald félagsins að keypt séu leikföng og komið með reikninginn til gjaldkera sem greiðir um hæl J

Guðrún Lára kom með uppástungu um að kaupa vatnsvél til að nýta fyrir utan 1., 2., 3. og 4. bekkjarstofurnar þar sem vatn í þeim stofum væri vont á bragðið og heitt.  Umræða myndaðist um hvar vélin ætti að vera og þá hvort leggja þurfi nýjar leiðslur í hana til að vatnið yrði betra. Vatnið í nýju skólastofunum er ekki bragðvont, en þar er vatnsvél. Hugsanlega væri hægt að kaupa vatnsbrúsavél. Ef til vill yrði blautt í kringum vélina hjá krökkunum í fyrstu bekkjunum ef þau myndu sulla með vatnið. Höfum þetta á bak við eyrað í bili.

 

  1. Sumardagurinn fyrsti. Umræða um það hvort það eigi að færa þennan dag yfir á miðvikudaginn (síðasta vetrardag) eins og gert hefur verið á Hellu og Hvolsvelli. Rökin fyrir því eru þau að fleiri myndu e.t.v. sækja hátíðina og fólk gæti þá nýtt sumardaginn fyrsta án þess að hann verði sundur slitinn. Einnig er orðið algengt að fermingar séu haldnar á sumardeginum fyrsta. Mótrök eru þau að þetta er sumarhátíð og ætti því að vera á sumardeginum fyrsta eins og verið hefur einnig væri þá jafnvel spurning að leggja þessa hátíð af ef fólk er ekki að gefa sér tíma fyrir hana. Ákveðið var leggja þetta fyrir á aðalfundi Foreldrafélagsins og fá fleiri skoðanir á málinu.

 

  1. Fyrirlestrar vetrarins. Hvaða fyrirlestra á að hafa og hverja ekki? Á yfirleitt að vera með fyrirlestra þar sem þeir eru mjög illa sóttir og virðist engu skipta hvort þeir eru haldnir á Laugalandi, Hellu eða Hvolsvelli í því tilliti. Einnig eru þeir dýrir og spurning hvort peningnum sé betur varið í eitthvað annað fyrir skólann okkar en fyrirlestra sem fáir nýta sér.

Allir stjórnarmenn samt á því að gott sé að halda nytsamleg námskeið.

 

UMFÍ býður upp á námskeið sem nefnist „Verndum þau“ þar sem talað er um ofbeldi gagnvart börnum. Námskeiðið er öllum að kostnaðarlausu. Hugsanlegt er að halda þetta námskeið í samvinnu við skólann og leikskólann. Guðrún Lára ætlar að heyra í Sigurjóni varðandi þetta.

 

Ekki var fleira tekið fyrir á fundinum og fundi slitið kl:18:11.

Posted in Uncategorized | Leave a comment

Fundargerð aðalfundar Foreldrafélags Laugalandsskóla 2014

Fundargerð aðalfundar Foreldrafélags Laugalandsskóla

Fundarstaður: Matsalur Laugalandsskóla     Dagsetning og tími 07. október 2014 kl. 19.30

Mættir eru allir í stjórn Foreldrafélagsins ásamt 9 öðrum félögum foreldrafélagsins samtals 14 manns.

  1. Formaður setti fundinn og bauð fólk velkomið.
  2. Hulda Brynjólfsdóttir var kosin fundarstjóri
  3. Rán Jósepsdóttir var kosin fundarritari
  4. Hulda tók við stjórn fundarins og þakkar traustið í fundarstjórn.

 

  1. Skýrsla formanns Foreldrafélags Laugalandsskóla.

Guðrún Lara fór í gegnum það helsta sem gert hefur verið í foreldrafélaginu á síðasta skólaári:  Starfsemi foreldrafélagsins hefur verið með hefðbundunu sniði.  Megin tekjur félagsins komu af bingóum og sumardagsins fyrsta hátíðinni.  Bingóin og sumardagsins fyrsta hátíðin voru mjög vel sótt. Foreldrafélagið er þakklátt þeim einstaklingum og fyrirtækjum sem gefa vinninga á bingóin.

Gjafir sem gefnar hafa verið á síðastliðunu skólaári eru:

  • Borðtennisspaðar og borðtennisboltar
  • 8 fótboltar
  • 4 körfuboltar
  • Perlur fyrir dagskólann
  • 2 Ipad spjaldtölvur

Andvirði gjafanna er samtals á þriðja hundrað þúsund.

Guðrún Lára sagði frá fyrirlestri sem var haldinn í nóvember á síðast ári á vegum Heimilis og skóla sem bar yfirskriftina Internetið – jákvæð og örugg notkun barna og unglinga.  Þetta var erindi sem Hafþór Barði Birgisson tómstunda-og félagsmálafræðingur hélt.

  1. Skýrsla frá skólaráði

Rán Jósepsdóttir fór í gegnum það sem skólaráðið hefur tekið fyrir á síðasta skólaári.

  • Farið yfir skólalykilinn og starfsmannahandbókina. Rit um myndirnar sem hanga á veggjum Laugalandsskóla kynnt. Fjárhagsáætlun yfirfarin og samþykkt. Ný valgrein fyri , 9. og 10. bekk er leikskólaval.  Innra mat skólans kom vel út bæði fyrir nemendur og kennara.
  1. Reikningar

Brynja Jónasdóttir lagði fram reikinga félagsins. Félagið á 340.171 kr. í sjóði.  Brynja opnaði fyrir umræður.

  • Ábending um breytt orðalag það er að nota frekar gjöld umfram hagnað frekar en orðið tap.
  • Hulda Meiri-Tungu talaði um að nýta peningana frekar en að geyma þá.

Ekki voru aðrar athugasemdir og voru reikningar samþykktir samhljóða.

  1. Breytingar á lögum: Ekkert sem liggur fyrir varðandi breytingar á lögunum.
  1. Kosningar
    • Guðrún Lára Sveinsdóttir (formaður) og Hannes Birgir Hannesson (meðstjórnandi) mega ganga úr stjórn. Þau gefa bæði kost á sér áfram. Ekki eru aðrir sem hafa gefið kost á sér og voru þau kosin með lófataki.
    • Skólaráð. Katrín Sigurðardóttir er fulltrúi í skóaráði og er hún búin að sinna því í tvö ár.  Hún getur því hætt, en gefur kost á sér áfram. Enginn annar gefur kost á sér og var Katrín kosin með lófataki.

Önnur mál.

  • Kristín Sigfúsdóttir aðstoðararskólastjóri. Þakkar fyrir gjafirnar sem skólinn hefur fengið frá foreldrafélaginu. Hún talaði um það hversu gott þetta væri fyrir nemendur skólans en umfram allt hversu dýrmætt jákvætt viðmót foreldrasamfélagsins væri fyrir skólann.
  • Brynja Jónasdóttir kemur með tillögu um að hækka gjald í foreldrafélgið um 500 krónur eða í 1000 krónur. Umræða myndaðist um tilgang með hækkuninni.  Ýmsar skoðanir komu fram á þessu máli. Ákveðið var eins og stendur í lögum að stjórnin tekur ákvörðun um að hækka gjaldið í foreldrafélagið ef ástæða þykir til.  Samkvæmt lögunum (11. grein)  á stjórnin að sjá um að taka þessa ákvörðu. Ekki verður gjaldið  hækkað að svo stöddu.
  • Hulda sagði að nú sem aldrei fyrr er þörf á að foreldrar standi saman um skólann okkar. „Verðandi skóli byggist upp á því hvar verðandi mæður vilja vera“.
  • Tillaga kom um að hressa upp hátíðina á sumardaginn fyrsta með því að fá jafnvel  skemmtikraft eða ný atriði eins og t.d. reipitog yfir sundlaugina eða eitthvað til að trekkja unglingana líka að skemmtuninni.
  • Útiaðstaðan. Dregarar komnir fyrir palla og tilbúið til þess að leggja klæðningu á, staurar í girðingu eru komnir.  Bjarni Jón vill að það þorni til að hægt sé að jafna og   gera tilbúið til að vinnudagur geti orðið þar sem foreldrar koma og hjálpa til við að setja klæðninguna á og jafnvel klára girðinguna.  Þetta verður líklega á laugardegi og foreldrafélagið sér líklega um að gefa vinnumönnunum að borða.  Bjarni Jón ætlar að vera sjálfur verkstjóri.
  • Fundarfólk var beðið um að koma með uppástungur varðandi fyrilestra á þessu skólári.
  •          Fjármál, Jón Jónsson nær vel til krakkanna og þau vilja koma að sjá hann
  •          Einelti
  •          Jafnréttismál
  •          Blátt áfram
  • Rætt var hvort sniðugt væri að hafa eitthvað samstarf við foreldrafélagið á Hellu varðandi fræðslu.  Þá væri jafnvel hægt að bjóða upp á fleirri fræðsluerindi þar sem kostnaðurinn dreyfist á fleiri.
  • Hulda í Meiri-Tungu lagði til að við hefðum fræðslu sem væri bæði fyrir foreldra og nemendur. Þá gætu foreldrar og nemendur rætt málin þegar heim væri komið og þá virkaði fræðslan dýpra. Margir sammála þessu.
  • Spurning frá Arndísi Arnkötlustöðum varðandi surmardaginn fyrsta. Hver á að sjá um hvað? Hver á að borga hvað? Guðrún svarar því þannig að hún var ekki viss í fyrra um það hvernig þetta ætti að vera enda ekkert til skriflegt um þessi mál.Arndís benti á að foreldrarnir hefðu skipt kostnaðinum á milli sín. Spurning hvort það sé réttlátt að þegar litlir árgangar eru að foreldrarnir sjái um að greiða fyrir allt á móti því þegar stórir árgangar eru.
  • Tillaga um að gera þurfi skjal um hvað þurfi að kaupa eins og pulsur ofl.  Einnig þarf að gera verklagsreglur um annað varðandi þennan dag. Hvaða bekkir gera hvað og hvernig, þannig að allir þurfi ekki að finna upp hjólið eins og verið hefur undan farinn ár.
  • Rætt um að það gæti verið sniðugt að fá tengiliðina í þeim bekkjum sem eiga að sjá um þetta, til að hóa bekknum saman og láta vita hver á að gera hvað. Það er þá í höndum stjórnar að tala við tengiliðina varðandi þetta skipulag ásamt því að útbúa þessi skjöl og halda utan um þau.
  • Rætt um heimasíðuna, að við nýtum okkur að lesa fréttir sem eru settar reglulega inn og skoða myndir. Jákvætt að fá upplýsingar um skólastarfið, nokkrar línur um hvað var um að vera síðustu viku o.s.fr.

Fundi slitið kl. 20:26

Posted in Uncategorized | Leave a comment

Vorhátíð foreldrafélasins

Það styttist í sumarið!!

Komið er að vorhátíðinni okkar. Hún verður með svipuðu sniði og í fyrra en þá breyttum við aðeins til og héldum hana síðasta vetrardag í stað sumardagsins fyrsta.

19. apríl klukkan 17:00 hefst fjörið.

Leikir, pylsur og sundlaugarpartý !!!!

Hlökkum til að sjá ykkur 🙂

Posted in Uncategorized | Leave a comment

Páskabingó!

Hið árlega páskabingó verður haldið föstudaginn 7. apríl  í matsal skólans kl. 19:30. Hlökkum til að eiga skemmtilega stund saman.

Posted in Uncategorized | Leave a comment

Endurmat á lögum Foreldrafélags Laugalandsskóla

Í haust á aðalfundi félagsins var farið í gegnum lög félagsins og gerðar nokkrar breytingar. Lög félagsins eru hér fyrir ofan undir flipanum “lög félagsins”.

Posted in Uncategorized | Leave a comment